Lög SKRR

Samþykkt á aðalfundi SKRR 7. Nóvember 2012

Reglur SKRR

Reglur SKRR um skíðamót.

1. Halda skal eitt Reykjavíkurmeistaramót í svigi og stórsvigi fyrir hvern aldursflokk 10 ára og eldri ef þátttaka er nægileg og aðstæður leyfa. Auk þess skal halda eitt Faxaflóameistaramót í svigi og stórsvigi í flokkum 10-13 ára sem haldið er af skíðafélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir börn 8-9 ára skal halda Reykjavíkurleika og fá allir viðurkenningu fyrir þátttöku.

Skylt er að halda a.m.k. eitt göngumót í hverjum aldursflokki ef um skipulagðar æfingar í greininni er að ræða og þátttaka er nægileg. Nægileg þátttaka telst vera a.m.k. þrír í hverjum flokki. Um framkvæmd móta skal farið eftir samþykktum SKÍ og almennum reglum ÍSÍ nema reglur SKRR kveði á um annað. Eftirlit og skipulagning skal vera í höndum SKRR eða aðila á þess vegum.

2. Keppt skal til Reykjavíkurmeistaratitils í öllum flokkum 10 ára og eldri í hverri grein sbr. 1. gr. og er Reykjavíkurmeistari sá keppandi sem nær bestum árangri ( tíma ) í hverri grein í sínum aldursflokki. Verði einstaklingar jafnir skulu báðir eða allir hljóta verðlaun skv. sínu sæti.

3. SKRR ákveður mótaskrá og skulu mót haldin af einstökum aðildarfélögum SKRR, einu eða fleiri saman, SKRR eða öðrum aðilum sem SKRR felur framkvæmd þeirra.

Mótagjöld skulu renna til þess aðila sem heldur mótin enda hafi hann af þeim kostnað.

4. Mótanefnd SKRR skal gera tillögur til um niðurröðun móta í héraði, hafa eftirlit með mótahaldi félaga/deilda innan SKRR og hafa yfirumsjón með mótahaldi á vegum SKRR. Mótshaldara ber að skila úrslitum skíðamóta staðfestum af eftirlitsmanni til mótanefndar eigi síðar en tveimur dögum eftir mót. Mótanefnd SKRR getur sett nánari reglur um skil á mótsgögnum.

Aðildarfélögum SKRR er skylt að útvega hæft starfsfólk í mót á vegum SKRR í samræmi við fjölda keppenda á hverjum tíma. Útvegi félag/deild ekki starfsmenn í mót á vegum SKRR getur það átt á hættu að missa réttin til mótahalds.

5. Mótanefnd SKRR skipar eftirlitsmann og varamann hans á hvert mót sem starfar í samræmi við reglur SKÍ eftir því sem við á eigi síðar en 10 dögum fyrir mót og tilkynnir það mótshaldara. Eftirlitsmaður skal skila skýrslu til mótanefndar SKRR um framkvæmd mótsins eigi síðar en tveimur dögum eftir mót. Komi fram alvarleg gagnrýni á framkvæmd mótsins eða að framganga forsvarsmanna félags/deildar í tengslum við mótahaldið sé til vansa ber eftirlitsmanni að tilkynna það. Mótanefnd skal þá kalla eftir svörum frá framkvæmdaraðila mótsins eða þeim sem í hlut á og vísa síðan málinu til framkvæmdastjórnar SKRR. Telji framkvæmdastjórn SKRR að framkvæmd móts eða framganga forsvarsmanna félags/deildar í tengslum við mótahaldið hafi ekki verið sem skyldi er henni heimilt að svipta viðkomandi félag/deild réttinum til mótahalds.

Úrskurðum SKRR er hægt að áfrýja sbr. 3. gr. laga SKRR.

6. Öllum félögum skíðadeilda og félaga á höfuðborgarsvæðinu er heimil þátttaka á mótum á vegum SKRR og aðildarfélaga þess. Mótshaldara er heimilt í samráði við SKRR að leyfa innlendum og erlendum gestum að keppa á þeim mótum. Við veitingu verðlauna skal ekki gera greinarmun á keppendum aðildarfélaga SKRR og öðrum keppendum.

7. Boða skal til móts með amk viku fyrirvara með pósti eða með rafrænum hætti. Í mótsboði skulu koma fram allar nauðsynlegar upplýsingar varðandi mótið, þmt allar tímasetningar, staðsetning og skipan mótsstjórnar. Við sérstakar aðstæður er framkvæmdaraðila móts heimilt í samráði við mótanefnd SKRR að boða til móts með skemmri fyrirvara.

Upplýsingar um skráða keppendur (fullt nafn og kennitala) frá hverju félagi skulu hafa borist mótshaldara í tölvutæku formi eigi síðar en þremur dögum fyrir mótsdag. Telji framkvæmdaraðili vandkvæði á að halda mót á tilgreindum tíma skal það tilkynnt mótanefnd SKRR með þeim fyrirvara sem unnt er og tekur þá mótanefndin ákvörðun um mótshald í samráði við framkvæmdaraðila.

8. Halda skal fararstjórafund eigi síðar en 12 klst. fyrir hvert mót. Hvert þátttökufélag skal hafa fararstjóra sem kemur fram fyrir hönd félagsins og ber ábyrgð á sínum keppendum. Framkvæmdaraðila móts skal tilkynnt um leið og keppendur eru skráðir til leiks hver verði fararstjóri og hvaða þjálfarar séu með hverjum keppnishópi.

Greiða skal mótagjöld fyrir alla skráða keppendur á fararstjórafundi. Mótagjöld eru ekki afturkræf þótt leikur falli niður eða keppandi mæti ekki til leiks.

9. Í aldursflokkunum 10 – 13 ára skal veita verðlaun fyrir fyrstu sex keppendur og þrjá í aldursflokkunum

14 ára og eldri. Verðlaunað er fyrir hvert mót óháð því hvort keppendur eru úr Reykjavíkurliði.

Verðlaun skulu vera verðlaunapeningur eða gjafaverðlaun og skal verðlaunaafhending fara fram strax að keppni lokinni á áberandi stað að viðstöddum keppendum og fararstjórum.

10. Krýndur verði Reykjavíkurmeistari í svigi, stórsvigi og alpatvíkeppni og skal krýningin Reykjavíkurmeistara í svigi og stórsvigi fara fram í lok hvors móts. Verðlauna skal Reykjavíkurmeistara og annað til þriðja sæti úr hópi keppenda Reykjavíkurliða sem eru með besta tíma á mótinu. Reykjavíkurmeistara skal verðlauna með bikar en annað og þriðja sæti skal verðlauna með verðlaunapeningum. Í lok síðasta móts vetrarins skal krýning Reykjavíkurmeistara í alpatvíkeppni og veita öllum iðkendum viðurkenningu fyrir þátttöku.

Samþykkt á aðalfundi SKRR 7. Nóvember 2012